McCain verður næsti forseti Bandaríkjanna.

Með 48% atkvæða.


Diebold Accidentally Leaks Results Of 2008 Election Early

Djöfull er tæknin orðin góð maður.

Hebbi

Viðtal við Albert Maysles

hljóðskrá

Eins og fram kom í síðasta pistli Hómers í Kviku á Rás 1 tóku meðlimir klúbbsins viðtal við Albert Maysles á Skjarlborgarhátíðinni á Patreksfirði um Hvítasunnuhelgina. Hluti af þessu viðtali var spilaður í pistlinum en hér kemur loksins viðtalið í heild sinni.

Sticky: Þegar LARPAÐ var í öskjuhlíðinni!

Sælir,

smá breyting á dagskránni, var að redda Monster camp finnst því við hæfi að gera viðeigandi breytingar.

Nördfest extravaganca, good times wankers og allt það.

LARP

Darkon Trailer og Monster camp trailer

Dagskráin komin.

Þriðjudaginn 10. júní á sama stað og venjuleg verður dagskráin svo hljóðandi.

20.00 Monster Camp 81 min.

21.30 Darkon 93 min.

23.20 Bjór, umræður og góðar stundir.

Góðar stundir klaufabárðar.

Hebbi

Skjaldborg ’08 – pistill seinni hluti

hljóðskrá

Um Hvítasunnuhelgina var heimildarmyndahátíðin Skjaldborg haldin öðru sinni á Patreksfirði. Hómer lét sig ekki vanta eins og fram kom í síðasta pistli. Í þessum pistli verður farið yfir þær myndir sem sýndar voru á hátíðinni, verk í vinnslu verða kynnt og spjall okkar við Albert Maysles, heiðursgest hátíðarinnar, verður flutt.

Heiðursgestur hátíðarinnar er 82 ára gamall barnfæddur Boston-búi, menntaðist til sálfræði áður en hann snéri sér að heimildarmyndagerð sem hófst með heimildarmynd um geðlækningar í Sovét. Brátt hóf Albert samstarf við bróður sinn, David, og unnu þeir að fjölda mynda saman allt til andláts Davids 1987. Snemma hófu þeir að tileinka sér það form og urðu meðhöfundar að þeirri stefnu sem kallast Direct cinema, þ.e. að kvikmyndagerðarmaðurinn fylgist með fólki án þess að blanda sér inn í það sem hann sér og reynir að viðhalda hlutleysi gagnvart umfjöllunarefninu. Samstarf þeirra skilaði mörgum ávöxtum m.a. mynd um umhverfislistarmanninn Christo sem skilaði þeim bræðrum einu Óskars-tilnefningunni og fleirum myndum þar sem Christo var fylgt á eftir og var sú nýjasta, The gates, einnig sýnd á hátíðinni. Þrjár myndir voru einnig sýndar á hátíðinni sem þykja með merkilegustu myndum Alberts: Salesman þar sem hann fylgir eftir fjórum Biblíu-sölumönnum og líkt og kom fram greinilega er hans mesta stolt, myndin Grey gardens þar sem fylgst er með tveimur andlega veikum frænkum Jackie Kennedy sem búa í einangrun frá samfélaginu í gömlu, níðurníddu óðalsetri og vakti miklar deilur á sínum tíma þar sem þeir bræður voru sakaðir um að notfæra sér þessar konur sér til framdráttar.

Fyrir þeim bræðrum var það ekki nýtt að fá harkalega gagnrýni vegna mynda, því opnunarmynd Skjaldborg, Gimme shelter, var mikið gagnrýnd fyrir það að þeir höfðu fest á filmu og sýnt morð á einum aðdáenda Rolling Stones sem drepinn var af liðsmönnum Hell‘s angels á tónleikum sem haldnir voru í Altamont, atburði sem markaði tímamót á ýmsan hátt.

Eftir dynjandi lófaklapp yfir þessu meistarastykki heimildarmyndagerðar færði Albert Maysles sig upp á svið þar sem hann var spurður spjörunum úr af Birni Ægi Norðdal kvikmyndafræðingi og áhorfendum. Eftir lok þessarar glæsilegu opnunar hélt svo Maysles ásamt bíógestum á veitingastaðinn Þorpið þar sem ölið var kneyfað í snjókomunni og slyddunni er ríkti fyrir utan.

Þetta sófaspjall í bíósalnum nægði þó ekki heimildarmyndaklúbbnum Hómer sem þyrsti í meiri vitneskju og mættu nokkrir meðlimir klúbbsins á Gistiheimilð Erlu snemma morguninn eftir, þar sem Albert var nývaknaður eftir að hafa staðið bjórvaktina til klukkan þrjú. Sest var niður með kaffi í hönd og nokkrum vel völdum spurningum baunað á kappann.

Meðal þess sem að okkur lék forvitni á að heyra var hvað það var sem að gerði það að verkum að hann fór að gera heimildarmynd á meðan hann dvaldi í Sovétríkjunum og valdi í kjölfarið að gera það að ævistarfi sínu.

Þýðing #

0:23 – 1:17 „Jú, sjáðu til, ég byrjaði að vinna sem geðlæknir og það var það sem gerði það að verkum að ég valdi að taka myndir í geðsjúkrahúsum í Sovíetríkjunum en í raun hafði ég áhuga á að fylla þá þörf að sýna fólkið í Rússlandi sem fólk í staðinn fyrir pólitíska hluti þar sem upplýsingarnar komu frá ágiskunum um hvað væri að gerast á bakvið veggi Kremlar en ekki beinni sjáanlegri þekkingu á venjulegu fólki, það var tilgangur minn.“

Í kvikmyndagerð sinni studdist Maysles ekki við handrit heldur fór af stað með ákveðna hugmynd um það hvernig mynd hann vildi gera. Heyrum hvað hann hafði um það að segja.

Þýðing #

4:18 – 6:07 „þetta snýst allt um að grípa tækifærin, vera á réttum stað á réttum tíma með réttu fólki. Þegar að við gerðum mynd um fjóra menn sem gengu hús úr húsi að selja biblíu vissum við að það hlyti að vera ákveðið drama í hvert skipti sem að sölumaður bankar á dyr og fer inn á heimili, honum mun ganga vel eða illa, konan verður hluti af dramanu. Það væri erfitt að klúðra þessu við þannig aðstæður. Og við vorum mjög heppnir að velja fjóra biblíusölumenn, við vorum mjög heppnir að komast að því að einn þeirra var mjög áhugaverður og myndin fór að snúast um líf hans en endaði sem mynd sem sagði heilmikið um Bandaríkin. Rithöfundurinn frægi Norman Mailer, sá myndina og fannst hún segja meira um Bandaríkin en nokkur mynd sem hann hafði áður séð, um kaupin og sölurnar, það sem við getum kallað frjálst framtak, hugsjónina um að einstaklingurinn geti tekið ákvarðarnir og skapað sína eigin framtíð.“

Það virðist vera algengur misskilningur að Cinema Vérité og Direct Cinema sé sami hluturinn, við spurðum hann út í muninn á direct cinema og cinema vérité og hvort cinema vérité væri ekki afbrigði af direct cinema.

Þýðing #

7:04- 8:18 „Eins og þetta lítur út fyrir mér spratt cinema vérité upp af sjálfsdáðum án áhrifa frá Bandaríkjunum en það var ekki eins hreint form og direct cinema. Í Chronicle of a Summer sem var ein fyrsta mynd Rouche lét hann fólk sitja við borð og setti línurnar svo fólkið talaði um það sem honum fannst áhugaverðast, sem er eitthvað sem ég geri ekki í direct cinema. Ég spyr ekki spurninga, ég leiðbeini ekki. Að þessu leiti er direct cinema beinskeyttara og raunverulegra, sem gengur lengra en hugsjónir cinema vérité. Á sama tíma er líklega hægt að kalla direct cinema cinema vérité því hún er mjög raunsönn frásögn af því sem er að gerast.“

En hvernig fer hann að því að halda hlutleysi sínu og að standast þá freistingu að grípa inn í þá atburði sem að eru að gerast fyrir augum hans?

Þýðing #

16:25 – 16:55 „Ég hef ekki áhuga á að stjórna og orðið leikstjóri er í raun ekki í mínum orðaforða þannig að ég fer í verkefnin með því hugarfari að leyfa hlutunum bara að gerast“

Við spurðum hann svo aðeins um það hvaða álit hann hefði á kvikmyndagerðarmönnum eins og Michael Moore og Morgan Spurlock, þar sem að kvikmyndagerðarmaðurinn er miðja myndarinnar og er að segja einskonar sannleika.

Þýðing #

5:00- 5:34 „Mér líkað það hvernig þú kallar það eins konar sannleika því þetta er ekki sannleikur sem að leyfir áhorfandanum að draga sínar ályktanir því þeir eru búnir að draga ályktanir áður en þeir byrja að gera myndina og því er þetta í raun bara áróður og ekki að mínu áliti heimildarmyndir eins og þær gerast bestar.“

Að lokum skulum við heyra aðeins um það hvað hann er að gera í dag.

Þýðing #

14:07- 14:56 „Ég er að mynda börn á aldrinum 4-6 ára, tvö í einu, bráðþroska börn sem eiga bráðþroska vini. Ég sit og hlusta á samræður þeirra án þess stinga upp á neinu og bíð eftir augnablikinu þegar eitthvað fallegt heyrist. Ég fór út í þetta þegar að kona sagði mér frá vinkonu sinni sem átti tvö börn, eitt sem var tveggja og hálfs og annað sem var tveggja mánaða, og hún heyrði þann tveggja og hálfs árs spyrja þann tveggja mánaða, hvernig er á himnum? Ég held ég hafi gleymt því.

Dagskrá Skjaldborgar var fjölbreytt og margar myndir komu skemmtilega á óvart þó að í sumum tilfellum hafi meðlimir klúbbsins ekki verið spenntir fyrir þeim. Meðal annars mátti sjá myndir um lotukerfið, pottamenningu Vesturbæjarlaugar, tölvuleikjafíkn, Kúbu, tvær misgóðar myndir um Mínus, uppsetningu dansverks, hip hop plötusnúð og örmynd um opnun Sjónlistastöðvar ásamt mynd um tónleikaferðalag Sigurrósar sem olli mörgum vonbrigðum. En nokkrar myndir voru það heillandi og áhugaverðar að þess virði er að nefna sérstaklega. Hin skemmtilega en jafnframt umhugsunarverða, Chequered flags of our fathers sýndi uppeldi Formúla-kappa á fjögurra ára gömlum syni sínum sem ætlað var að fylgja í fótspor föðursins, Magapína sem sýnir magaaðgerð á belju sem hefur étið yfir sig af plasti, á gamansaman og gróteskan hátt í stíl sem minnir helst á spútniskar fræðslumyndir í Sovétrikjunum forðum, Melódíur minningana sem líkt og margar myndir hafði á að skipa einstökum karakter sem í þessu tilfelli var Jón kr. Ólafsson stórsöngvari. Tvær aðrar myndir innihéldu athyglisverða karaktera, samnefnd mynd um myndlistamanninn Birgir Andrésson sem fékk mann til að vilja vita meir um manninn og verk hans, einnig myndin Bad boy Charlie um fatafelluna Charlie sem vægast sagt er skrautlegur karakter og olli mikilli skemmtun sem og umræðu.

Á hátíðinni var sýnt úr sex verkum í vinnslu sem flestar lofuðu góðu, það voru myndirnar, Katja, Afríkuævintýri, Athvarfið, Jórunn Viðar, Norð Vestur, Sigríður Níelsdóttir og Sólskínsdrengur. Sýnt var mismikið úr hverri mynd og fengi leikstjórarnir færi á að skýra mál sitt fyrir og eftir myndskeiðin.

Við tókum leikstjóranna tali um verkin, byrjum á að heyra í Páli Sigþóri Pálssyni um mynd hans Afríkuævintýrið; SB.

Katja er mynd í leikstjórn Guðmundar Tjörva Guðmundssonar sem Zik Zak kvikmyndir eru að framleiða.

SB.

Jórunn Viðar nítíu ára tónskáld er umfjöllunarefni samnefndrar myndar eftir Ara Alexander Ergis Magnússon.

SB.

Til stendur að frumsýna í haust.

Norð Vestur mynd Einars Þórs Gunnlaugssonar sem hefur verið hátt í tíu ár í smíðum,

SB.

Sigríður Nielsdóttir eftir Kiru Kiru og Orra Jónsson

SB

Og síðast en ekki síst ný heimildarmynd frá Friðriki Þór Friðrikssyni Sólskínsdrengur.

SB.

Einnig stóð til að sýna úr myndinni Kjötborg undir liðnum verk í vinnslu, en svo fór að myndin varð tilbúin á föstudagskvöldinu og var hún því sýnd í heild sinni og full kláruð. Ekki tókst betur enn svo en að hún hreinlega fékk áhorfendaverðlaun hátíðarinnar. Sem hún átti svo sannarlega skilið, því þótt þær hafi verið margar góðar stóð Kjötborg upp úr sem vönduð og skemmtileg mynd um vin í eyðimörk litlausra og ópersónulegra ofurverslana. Ekki skemmir fyrir að bræðurnir tveir sem reka Kjötborg eru mjög vingjarnlegir og taka sjálfskipuðu hlutverki sínu sem félagsmiðsstöð mjög alvarlega. Fólkið sem sækir verslunina er einnig áhugavert og eru mörg skemmtileg atriði þar sem það kemur við sögu svo sem sendiferð eins bróðursins á Grund þar sem vistmaður er í hungurverkfalli út af matnum.

SB.

Heyrum örlítið brot í viðbót úr myndinni.

Við tókum stutt spjall við leikstjóranna Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur.

SB.

Aðstandendur Sjónritsins rafskinnu voru á hátíðinni, buðu veitingar og sýndu sýnishorn úr öðru eintaki ritsins sem von er á í hillur innan skamms. Því var lofað í síðasta pistli að útskýra hvað sjónrit er og við ætlum að láta aðstandendur ritsins um það.

SB.

Til að kaupa ritið eða senda inn efni til Rafskinnu geturðu farið á rafskinna.com.

Á sunnudagskvöldið var hátíðinni formlega slitið á sveitaballi þar sem gestir jafnt sem innfæddir skemmtu sér konunglega. Þegar yfir er hátíðina er litið má segja að á margan hátt hafi hún farið framúr vonum, bæði þegar litið er til þess hvað mikill meirihluti mynda var yfir meðallagi í gæðum og metnaður lagður í þær. Einnig var skipulag hátíðarinnar fagmannlegt og gekk eins og vel smurð vél án nokkura truflana að telja mætti. Ekki var þó eingöngu sjónræn veisla á ferð, heldur héldu Patreksfirðingar gestum annarsvegar ljúffenga plokkfiskveislu sem Kvenfélagið stóð fyrir og svo glæsilega steinbíts- og kræklingaveislu í Sjóræningjahúsinu.

Það var því vel mettur og ánægður heimildarmyndaklúbbur sem kvaddi Patró með ákvörðun í hjarta um að koma aftur og gera þetta að föstum punkti í tilverunni og megi Skjaldborg lifa áfram um ókomna tíð.

Góðar stundir klaufabárðar!

Skjaldborg ’08 – pistill fyrri hluti

hljóðskrá

Heimildamyndaklúbburinn Hómer brá undir sig betri fætinum og skellti sér vestur á Patreksfjörð þar sem Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg var haldin í annað sinn síðastliðna helgi. Þar voru sýndar tuttugu og fjórar íslenskar heimildarmyndir hverra umfjöllunarefni teygði sig frá Suðureyri til Afríku. Fólk, ferðalög, hljómsveitir, bílar, lundar, kýr, stripparar og plötusnúðar koma við sögu á mjög vel heppnaðri hátíð sem náði hámarki strax á föstudagskvöldinu með opnunarmyndinni „Gimme Shelter“ eftir heiðursgest hátíðarinnar Albert Maysles. Þó að hámarkinu hafi verið náð á föstudagskvöldinu gáfu hinir dagarnir ekkert eftir, gæði myndanna var slík og verður undirritaður að játa að sér hafi verið komið skemmtilega á óvart yfir metnaði og hæfileikum kvikmyndagerðarmannanna sem komu við sögu. Eins og Teitur sagði hér á undan eru það Geir Gestsson, Hálfdán Petersen, Huldar Breiðfjörð og Hafsteinn Gunnar Sigurðsson sem eru hugmyndasmiðir hátíðarinnar, við ræddum við Hálfdán og Huldar til að fræðast um sögu hátíðarinnar.

Eins og fyrr segir var það Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Albert Maysles sem var heiðursgestur hátíðarinnar, Albert þessi er einn af hugmyndasmiðum kvikmyndastefnunar „Direct Cinema“ þar sem myndmálinu og umfjöllunarefninu er gefið næði til að segja sína sögu milliliðalaust, engin viðtöl, enginn sögumaður eða útskýringartextar. Áhorfandinn verður sjálfur að gera upp við sig um hvað verið er að fjalla. Við spurðum Hafstein Gunnar hvernig heimsókn heiðursgestsins kom til.

Við félagarnir í Hómer settumst með Albert og áttum við hann gott spjall yfir kaffibolla, sem verður þó ekki flutt nú nema að hluta.

Upprunalega hugmyndin með Gimme shelter var að gera tónleikamynd, en atburðir þróuðust þannig að úr varð sögulegt verk um upphafið á endi hippahreyfingarinnar. Hells Angels voru fengnir í gæslu á tónleika Rolling Stone sem haldnir voru við Altamont hraðbrautina fyrir utan San Fransisco með skelfilegum afleiðingum. Slagsmál brutust út hvað eftir annað, sem endaði á þvi að 18 ára aðdáandi, Meredith Hunter, var stungin til bana af Hells Angels. Morðið var fest á filmu og er sýnt í myndinni, við spurðum Albert út í gagnrýnina sem hann og bróðir hans höfðu orðið fyrir vegna þessa.

Þýðing #1

Mér finnst gagnrýnin ekki við hæfi, ef við hefðum ekki náð atvikinu á filmu hefði fólk sagt að við hefðum misst af mikilvægasta atburðinum. Við náðum atvikinu en gátum valið að sýna það ekki, þá hefði verið spurt, af hverju sýnduð þið það ekki í myndinni? Þetta var stór hluti af því sem var að gerast, við hefðum fengið meiri gagnrýni hefðum við ekki sýnt það í myndinni.“

Á laugardaginn eftir viku heldur umfjöllun okkar um hátíðina áfram og munum við heyra meira frá Albert. Við ætlum einnig fjalla um myndirnar sem sýndar voru. Spjalla við leikstjóra mynda sem eru í vinnslu.

Taka stutt spjall við leikstjóra sigurmyndarinnar, Kjötborg.

Spjalla við aðstandendur Sjónritsins Rafskinnu, hvað er sjónrit spyrðu? Fylgist með eftir viku og við munum fræða ykkur um málið.

Góðar Stundir klaufabárðar.

Sticky: Klúbbakvöld miðvikudaginn 20.05.2008

Þar sem þáttaka kosningarinnar var undir lögbundnu lágmarki lýsi ég þeim hér með ógildum, tek upp fyrri einræðislega tilburði og smíða dagskránna alveg sjálfur og eftir eigin höfði. s.s. Dagskrá næsta klúbbs er svo hljóðandi:

20.00 Manda Bala Brazil 85 min.

21.30 Land of look behind USA 90 min.

23.00 Bjór og allt það

send a bulletMarley

Góðar stundir etc. etc.

Hebbi

Skjaldborg ’08 – ferðin

Um síðustu helgi, Hvítasunnuhelgina, var heimildarmyndahátíðin Skjaldborg haldin í annað sinn á Patreksfirði. Heimildarmyndaklúbburinn Hómer gat nú ekki verið þekktur fyrir annað en að mæta á svæðið og voru það sjö meðlimir klúbbsins sem klæddu sig í ferðagallann og heldur vestur á firði. Upphaflega höfðum við planað að blogga daglega um hátíðina en þegar uppi var staðið reyndist netsambandið í Skjaldborgarbíóinu ekki eins stöðugt og reiknað var með þannig að ferðasagan kemur hér í heild sinni.

Dagur 1

Eldsnemma rifum við okkur á fætur og fórum að gera okkur klára í langferð. Ferðinni var heitið á Patró þar sem að heimildarmyndahátíðin Skjalborg verður nú um helgina. Ferðin vestur gekk að mestu leyti vel nema hvað að ónefndur bílstjóri í hópnum, sá sem að talaði hvað mest um að hægt veri að taka bensín á Búðardal, gleymdi að sjálfsögðu að fylla tankinn og að sjálfsögðu urðum við bensínlausir, eða reyndar olíulausir, rétt áður en við komum í Flókalund. En olían skilaði sér á endanum og komumst við á endanum til Patró.Maysles í Q&A

Strax var farið í það að ganga frá því að fá að taka viðtal við Albert Maysles og eftir nokkur símtöl vorum við orðnir nokkuð vongóðir um að það myndi takast en það yrði þá á morguninn eftir. Þegar að það var komið á hreint fórum við að huga að því að fara á opnun hátíðarinnar og sýningu fyrstu myndarinnar. Hátíðin var sett fljótlega eftir kvöldmat og þegar að búið var að kynna heiðursgestinn, Albert Maysles, hófst sýning fyrstu myndarinnar, Gimme Shelter, eftir heiðursgestinn.

Fyrir þá sem að ekki þekkja Gimme Shelter þá fjallar hún um tónleika Rollings Stones á Altamont kappakstursbrautinni, aðdraganda þeirra, og ekki síst brjálæðið sem átti sér stað á tónleikunum. Myndin þótti merkileg fyrir margra hluta sakir. Þannig er hún talin sýna endalokin á hippatímanum. Eitt umdeildasta atvik myndarinnar er þegar að meðlimur Hells Angels, sem að höfðu verið fengnir til að sinna gæslu á tónleikunum, stingur tónleikagest til bana. Albert Maysles og bróðir hans, David, voru harðlega gagnrýndir fyrir að gera ekkert þegar að þetta gerðist en raunveruleikinn er sá að það voru ekki þeir sjálfir sem að tóku það atriði og tökumaðurinn var það langt í burtu að hann hefði hvort er eð ekki getað gert neitt.

Eftir þessa stórgóðu opnunarmynd var opnað fyrir spurningar til Maysles sem að Björn Ægir Norðfjörð stjórnaði. Til að byrja með var það fyrst og fremst Björn sem að var að spyrja Maysles út í verk hans og ekki síst út í myndina Gimme Shelter og svo fengu áhorfendur loks að spyrja. Úr þessu varð alveg fyrirtaks spjall þar sem að Maysles fór vítt og breitt um verk sín, um heimildarmyndagerð almennt og hvaða verk hann er með í pípunum í dag. Sem betur fer vorum við með upptökutæki með okkur til að taka upp viðtalið við kallinn og nýttum við okkur það og tókum upp þetta góða spjall. Upp úr þessu munum við svo vinna efni fyrir kvikmyndaþáttinn Kviku á Rás 1.

Eftir að dagskránni lauk í Skjaldborg færði hópurinn sig yfir á Veitingastaðinn Þorpið þar sem að menn skoluðu niður myndunum með öndvegis öli áður en haldið var heim á gistiheimili og farið að sofa.

Dagur 2

Þar sem að fjöldi myndanna á hátíðnni er það mikill byrjar dagskráin snemma eða um kl 10 um morguninn. Þennan fyrsta morgun skiptist reyndar hópurinn í tvennt. Helmingurinn dreif sig í bíó á meðan að þrír af okkur fór yfir á Gistiheimili Erlu að ná tali af Albert Maysles. Þar sem að Maysles átti að fara aftur til New York seinna um daginn urðum við að hafa snarar hendur og vorum því mættir stundvíslega kl 10 á gistiheimilið þar sem að við hittum meistarann. Við spurðum kallinn spjörunum úr og fórum vítt um völl. Meðal annars fengum við að heyra álit hans á ummælum Werners Herzog um það að það sé ekki hægt að segja annan sannleika í myndum en sannleika kvikmyndagerðarmannsins en því er Maysles heldur betur ekki sammála. Upp úr þessu viðtali verður svo unninn pistill fyrir Kviku á Rás 1

Afslappaður á gistiheimilinuEftir næstum klukkutímaspjall kvöddum við Maysles og héldum í bíóið þar sem að hinn helmingurinn var þegar búinn að sjá fjórar fyrstu myndir dagsins. Við náðum mátulega inn til að sjá mynd um Kúbu þar sem að almenningur á Kúbu segir álit sitt á ástandinu í landinu. Eftir það drógum við okkur aðeins í hlé til að hlaða batterýin og fylla á tankana í okkur sjálfum. Eitthvað hefur hið góða fólk á veitingastaðnum Þorpinu vanmetið fjöldann sem að mætti í mat til þeirra og dróst það því aðeins að fá matinn. En hann skilaði sér að lokum og bragðaðist að sjálfsögðu ljómandi vel.

Eftir matinn tók við kröftug en þó mikið gölluð mynd um hljómsveitina Mínus þar sem að fylgst er með sveitinni á tónleikaferð. Eftir hana kom smá hlé. Reyndar höfðu verið sýndar tvær myndir á undan mínus myndinni og þess vegna vorum við komnir í hlé svona fljótt eftir matinn. En eftir hléið tók við mjög góður kafli. Að vísu sáum við ekki nema rétt blálokin á fyrstu myndinni í þessum kafla og næsta mynd þar á eftir var ekkert merkileg en svo komu þrjár mjög fínar myndir í runu. Fyrst þeirra var myndin Melódíur minninganna, mynd um stórsöngvarann Jón Kr. Ólafsson og tónlistarminjasafnið sem að hann hefur komið upp á heimili sínu á Bíldudal. Á eftir henni var myndin Chequered Flags of our Fathers þar sem fylgst er með feðgum í akstursíþróttum þar sem að faðirinn er að þjálfa fjögurra ára son sinn til þess að verða atvinnumaður í akstursíþróttum. Síðasta myndin í þessari lotu var myndin Bara fimm mínutúr í viðbót sem að fjallar um tölvuleikjafíkn.

Eftir stutt hlé var svo komið að dagskrárliðnum verk í vinnslu. Að vísu varð smá breyting á dagskránni þegar að þarna var komið sögu því ein af myndunum sem átti að vera í verk í vinnslu, myndin Kjötborg, kláraðist kvöldið áður og var hún því sýnd fyrst og svo komu verk í vinnslu. Verkin sem sýnd voru eru mislangt komin. Þannig var t.d. myndin Athvarfið (sem við vorum reyndar sammála um að væri ekki heimildarmynd og ætti því ekki beint heima á hátíðinni) mjög langt komin á meðan að myndin Götubörn – Katja er ekki enn komin í klippingu. Síðasta myndin í vinnslu sem sýnd var þennan dag var myndin Sólskinsdrengur, mynd um einhverfu sem að Friðrik Þór Friðriksson er að gera. Þessi mynd átti reyndar að vera á sunnudeginum en þar sem að Frikki þurfti að yfirgefa svæðið fyrr en gert var ráð fyrir var sýningu hennar flýtt.

Þegar að lokið var við að kíkja á verk í vinnslu var komið að því að næra líkamann enda var hugurinn búinn að fá gríðarlega næringu þegar þarna var komið við sögu. Rúta var mætt á svæðið og ferjaði hún hátíðargesti yfir í félagsheimilið á staðnum þar sem að Kvennfélag Patreksfjarðar bauð í þessa ágætu plokkfiskveislu. Ekki er hægt að segja annað en að þetta hafi vakið mikla lukku meðal hátíðargesta og var þetta skemmtileg tilbreyting frá þessum klassísku kjötveislum sem að svo oft eru við svona tækifæri. Það voru því vel mettir hátíðargestir sem að snéru sér aftur að heimildarmyndunum.

Síðustu myndir dagsins komu svo úr smiðju heiðursgestsins, sem því miður var lagður af stað heim til New York á þessum tímapunkti. myndirnar tvær sem að voru sýndar í þetta skiptið voru Grey Gardens, sem fjallar mæðgurnar Edith Bouvier Beale og Little Edie og einangrun þeirra frá heimi hina frægu og ríku sem að þær eitt sinn tilheyrðu, og The Gates, sem er um gerð stærsta útilistaverks sem sett hefur verið upp í New Yort en það var listamennirnir Christo og Jeanne Claude sem að gerðu þetta listaverk. The Gates þykir vera fyrir margra hluti merkileg og má sem dæmi nefna að tökur á henni hófust árið 1979 þegar að Maysles bræðurnir hófu að fylgjast með Christo og Jeanne Claude við undirbúning listaverksins.

Eftir að Maysles hafði verið gerð góð skil og eiginlegri dagskrá hátíðarinnar þennan daginn lauk var haldið á veitingastaðinn Þorpið þar sem að Rafskinna hélt partý í tilefni þess að annað „tölublað“ þessa DVD-sjónrit er við það að líta dagsins ljós. Að þessu tilefni var að sjálfsögðu djammað fram á nótt.

Dagur 3

Líkt og daginn áður hófst þessi snemma. Rétt fyrir klukkan 10 var arkað af stað yfir í bíóhúsið til að hefja áhorf dagsins. Fyrsta mynd dagsins, Ber er hver að baki, fjallaði um Vesturbæjarlaug og samtölin sem þar eiga sér stað en þó á þann hátt að ekki þyrfti að óttast askipti persónuverndar. Því næst var svo myndin Öræfakyrrð eftir Pál Steingrímsson. Myndin er um Kárahnjúkavirkjun og það rast sem að henni fylgir auk þess sem fjallað er um mögulega stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Á eftir henni var sýnd myndin Bíllinn minn, lítil mynd um unga konu sem að fer og kaupir gamla Lödu Sport af öldruðum bónda. Síðasta myndin í þessari lotu var myndin Ævintýrin gerast enn, um uppfærslu Óperu Skagafjarðar á La Traviata. Þegar hún byrjaði laumaði ég mér út til að sinna ýmsum líkamlegum þörfum og rölti ég því yfir á gistiheimili.

Eftir hlé var komið að síðustu myndinni af fjórum eftir Albert Maysles sem sýndar voru á hátíðinni. Í þetta skiptið var það myndin Salesman og var það vel við hæfi að hún skildi vera sú síðasta af myndum Maysles því þetta er sú mynd sem að Maysles þykir einna vænst um af myndunum sínum. Myndin fylgir eftir fjórum farandsölumönnum, sem þá var deyjandi stétt, sem fara hús úr húsi til að selja biblíur. Myndin einbeitir sér sérstaklega að einum mannanna og sýnir hún vel innri baráttu sölumannanna við höfnunartilfinningu og heimþrá.

Smá hlé var tekið eftir að Salesman lauk og svo tók við seinni hluti verka í vinnslu. Að þessu sinni voru það þrjár myndir sem að voru kynntar til sögunnar. Sú fyrsta þeirra var Norð Vestur og fjallar hún um þróun byggðar á norðanverðum Vestfjörðum eftir snjóflóðin mannskæðu á Súðavík og Flateyri. Á eftir henni kom smá brot úr myndinni Afríkuævintýri en í henni er fylgst með ferðalagi fimm manna á einum jeppa og tveimur mótorhjólum frá London til Afríkuríkisins Gabon. Síðasta myndin í vinnslu sem að sýnt var úr var myndin Sigríður Níelsdóttir. Sýndur var trailer úr myndinni og leit þetta út fyrir að vera krúttleg mynd um krúttlega gamla konu, gerð af krúttlegum krökkum. Myndin er s.s. um listakonuna Sigríði Níelsdóttur sem að á gamals aldri fór að gefa út eigin tónlist og hefur á aðeins 7 árum gefið út rúmlega 60 plötur og er hún t.d. á lista yfir söluhæstu listamennina hjá versluninni 12 tónum.Steinbítur snæddur í Sjóræningjahúsinu

Enn og aftur var komið hlé og notaði ég þá tækifærið til að safna kröftum fyrir lokahrinu hátíðarinnar. Af þeim sökum missti ég af næstu tveimur myndum en náði þó síðustu myndinni í þessari næstsíðustu hrinu hátíðarinnar. Um var að ræða myndina Bad Boy Charlie, mynd um hinn stórbrotna Charlie sem að vann fyrir sér meðal annars með því að fækka fötum. Í myndinni er fylgst með Charlie þegar að hann stígur síðasta dansinn en hann var á skemmtistað í Vestmannaeyjum.

Eftir taktfastan dans Charlie var komið að kvöldmatnum og í þetta skiptið var það Sjóræningjahúsið sem að bauð til veislu. Upphaflega stóð til að vera með hrefnu- og kræklingaveislu en af óviðráðanlegum orsökum var ekki hægt að bjóða upp á hrefnu þannig að steinbítur var á boðstólnum í staðinn. Ekki var hægt að sjá að hátíðargestir væru neitt ósáttir við það því þeir tóku hraustlega til matar.

Að matinum loknum tók við lokahrina hátíðarinnar og hófst hún á mynd um hljómsveitina Sigurrós og tónleikaferð þeirra um Evrópu árið 2003. Af því sem að ég sá virtist hún reyndar fyrst og fremst fjalla um erfiðleika við að finna tjaldstæði á Hróarskeldu. Á eftir Sigurrós var sýnd myndin Jórunn Viðar. Þetta er reyndar verk í vinnslu þó svo að hún væri ekki sýnd í þeim lið hátíðarinnar. Myndin, sem Ari Alexander er að gera, er um tónlistarkonuna Jórunni Viðars og lífshlaup hennar en hún samdi meðal annars tónlistina við eina af fyrstu íslensku kvikmyndunum. Lokamynd hátíðarinnar var svo myndin The Great Northern Documentary. Þetta var önnur myndin á hátíðinni sem fjallaði um hljómsveitina Mínus en í þetta skiptið var fylgst með þeim þegar að þeir voru að taka upp plötuna The Great Northern Whalekill í Los Angeles. Það var óneitanlega svolítið öðruvísi mynd sem að við fengum af hljómsveitinni í þetta skiptið.

Að lokinni sýningu síðustu myndarinnar var tekið til við að tvista. Slegið var upp dansleik í félagsheimilinu þar sem að Teitur Atlason, kynnir hátíðarinnar, byrjaði á að þeyta skífum og svo tók hljómsveitin Kraftlyftingar frá Ísafirði við og spilaði nokkur lög. Á ballinu var svo besta mynd hátíðarinnar að mati áhorfenda kynnt en það var myndin Kjötborg sem að fékk þann heiður og það mjög verðskuldað. Lokaorðið á dansleiknum og í raun á hátíðinni átti svo DJ Platurn, öðru nafni Illugi Magnússon, en heimildarmynd um hann, A hip hop homecoming, hafði einmitt verið sýnd fyrr um daginn.

Dagur 4

Haldið heim.

Niðurlag

Eins og glöggir lesendur sjá er ekki farið náið út í það að fjalla um hverja þá mynd sem sýnd var á hátíðinni. Það mun koma í framhaldspistli síðar meir þegar að ferðalangarnir hafa borið saman bækur sínar um gæði myndanna.

P.S.
Síðasta myndin er birt með góðfúslegu leyfi frá Guðný

Nader og Schwarzenegger – Pistill

pistill

Heimildamyndaklúbburinn

Hómer

Kynnir

útvarpsumfjöllun um myndirnar:

An Unreasonable Man eða Ósveigjanlegur maður

eftir Henriette Mantel og Steve Skrovan

frá 2006

og

Running With Arnold eða Boðið fram (eða hlaupið) með Arnold

eftir Dan Cox

frá 2006

3.maí.2008

An unreasonable man

SB #1

„Takk Ralph fyrir Íraksstríðið, takk Ralph fyrir skattalækkanirnar, takk Ralph fyrir eyðilegginguna á umhverfinu og fyrir eyðilegginguna á stjórnarskránni.

Þetta er verra enn barnalegt þetta jaðrar við íllsku.

Mér finnst að maðurinn verði að fara, hann ætti að búa í öðru landi. Hann er búinn að valda nægum skaða hér nú er komið að einhverju öðru landi.

Ralph, snúðu þér aftur að afturendum bifreiða ekki eyðileggja möguleika Demokrata á forsetastólnum aftur líkt og þú gerðir fyrir fjórum árum.“

Þessi upphafsorð lýsa þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af neytendalögfræðingnum Ralph Nader frá því að úrslit í bandarísku forsetakosningunum árið 2000 voru kunngerð. En er þetta hin rétta sýn á manninn? Það er umfjöllunarefni myndarinnar An unreasonable man eða Ósveigjanlegur maður.

Hinn líbanskættaði Nader vakti fyrst athygli á sér þegar hann skrifaði bók þar sem hann gagnrýndi bandarískan bílaiðnað harkalega fyrir lélegar öryggiskröfur og gallaða bíla sem fyrirtækin settu á markað, í fullri vitneskju um hversu léleg og hættuleg hönnunin væri.

Ekki voru þessi risafyrirtæki hrifin af baráttu Naders fyrir öryggi bíleigenda og fljótlega fór honum að finnast sem hann væri eltur. Einnig fór að bera á dularfullum símhringingum og heimsóknum ókunnugra manna til vina Nader, í þeim tilgangi að fræðast um einkalíf hans. Þá birtist skyndilega glæsileg kona í matvöruverslun sem gekk upp að honum og vildi eiga við hann samræður um stjórnmál. Konunni var þó ekki ætlað að eiga samræður við Nader heldur átti hún að tæla hann til samræðis svo hægt væri að þagga niður í honum með svo sem einu kynlífshneyksli.

Umfjöllunarefni bókar Naders endaði fyrir þingnefnd þar sem bílafyrirtækin játuðu sig sigruð og báðust afsökunar á framferði sínu í hans garð.

SB#2

„Ég vil biðja nefndina afsökunar sem og Ralph Nader og ég vona að afsökunarbeiðnin verði tekin til greina.“

Þessi sigur Naders gegn bílaframleiðendum varð svo til þess að alríkislög um öryggiskröfur í bílum og umferð voru sett árið 1972.

En baráttu Naders fyrir hagsmunum neytenda og almennings var hvergi nærri lokið. Nader, sem eyðir 18 stundum á dag í hugsjónabaráttu sína, fór þannig að sanka að sér fólki sem var tilbúið til að leggja hönd á plóginn. Það fólk öðlaðist fljótt nafnbótina Nader‘s raiders eða Víkingar Naders og einbeitti sér að baráttu fyrir hag neytenda með því að kafa í gögn og vekja athygli á spillingu ýmissa aðila. Harkaleg gagnrýni Naders og samstarfsfélaga varð þannig til þess að mörgum lögum var breytt til hins betra ásamt því sem neytenda-, vinnu- og umhverfisvernd jókst. Má e.t.v. segja að uppeldi Naders, þar sem faðir hans úthlutaði honum pólitískum verkefnum á hverjum morgni sem kröfðust gagnrýninnar hugsunar og verja þurfti að kveldi, hafi skilað þessu árangursríka framlagi Naders til hagsbóta fyrir almenning.

SB#3

„Á hverjum morgni fyrir skóla tilkynnti pabbi Ralphs umræðuefni sem átti að ræða yfir kvöldmatnum.

Til dæmis, við ætlum að ræða um bílastæðavandamál við aðalgötuna. Þannig að við reyndum að finna lausn á bílastæðavandanum.“

Í stjórnartíð Jimmy Carters fór að síga á ógæfuhliðina hjá Nader sem hafði stutt Demókrata dyggilega í gegnum tíðina. Hann hafði ávallt talið að málefni hans ættu góðan hljómgrunn hjá Demókrötum, en þegar á reyndi var það mest í orði. Með valdatöku Regans hófst svo niðurrif á öllu því sem Nader hafði barist fyrir. Niðurrif sem varð til þess að stofnanir sem ætlað var að hafa eftirlit með fyrirtækjum og sinna réttindum neytenda voru stórlaskaðar og ekki svipur hjá sjón þegar valdatíð Clintons hófst. Valdataka Clintons breytti þó litlu fyrir þennan ötula baráttumann. Demókratar höfðu nefnilega dottið ofan í sömu gryfju og Repúblikanar og voru orðnir hallir undir ýmis fyrirtæki vegna ríflegra styrkja í kosningasjóði. Hugsjónir þær sem Nader gat tengt sig við á þeim bæ voru því horfnar.

Í gegnum tíðina hafði Nader oft verið spurður að því hvort hann myndi skella sér í forsetaframboð en ávallt svarað því neitandi. Að lokum var forsetaframboð þó hið eina sem hann sá í stöðunni til að vekja athygli á baráttumálum sínum eða fá þeim framgengt. Ákvörðun um framboð til forseta fyrir hönd Græningja var því tilkynnt.

SB#4

Eins og þið vitið ætla ég að bjóða mig fram til forseta sem óháður frambjóðandi í öllum fylkjum. Mikilvægast er að forsetaframbjóðendur taki tillit til fólksins, því þessir frambjóðendur hafa ekki staðið sig lengi. Flokkarnir tveir hafa ekki staðið sig, það þarf að hrista upp í þeim og halda þeim á tánum.“

Kosningabarátta Naders fór að mestu fram í stórum samkomuhúsum þar sem leikarar og þekktir listamenn komu fram til stuðnings honum. Þar á meðal Susan Sarandon leikkona og Michael Moore kvikmyndagerðamaður.

SB#5

Þið verðið að skilja að snýst um meira en að sigra, þetta snýst um heildamyndina og hér byrjar heildarmyndin. „

„Við erum þar sem við erum því að við höfum sætt okkur við svo lítið svo lengi. Ef við höldum því áfram versnar þetta bara, ef þú sættir þig við skárri kostin af tveimur íllum endarðu samt uppi með vondan kost.“

Fjölmiðlar vildu sem minnst vita af honum vegna tengsla eigenda þeirra við annað hvort Demókrata eða Repúblikana og var Nader því skipulega haldið í burtu frá þeim. Þessi kæfing á málfrelsi Naders náði þó fyrst hámarki þegar kom að kappræðum forsetaframbjóðendanna. Þar komu stóru stjórnmálaflokkarnir ekki einungis í veg fyrir þátttöku hans, því þegar háskólanemi gaf honum miða á kappræðurnar sjálfar svo hann gæti fylgst með, fékk fylkislögreglan fyrirskipanir um að meina honum aðgang.

En svo fór sem fór. Bush vann og í biturð sinni yfir ósigrinum fundu demókratar sér blóraböggul í Nader. Honum var kennt um ósigur Gore og allsherjar rógsherferð fór af stað gegn honum.

En var tapið honum að kenna? Þegar litið er nánar á þær fullyrðingar í myndinni kemur annað í ljós.

SB#8

„Allir frambjóðendurnir fengu fleiri enn þessi 537 atkvæði sem skildu að Bush og Gore Demokratar fóru að leit að blóraböggli sem þeir fundu í Nader Og litu framhjá staðreyndinni að 10 milljón Demokratar kusu Bush.“

Þetta varð þó Nader einnig dýrkeypt á annan hátt. Margir snéru við honum baki og ósættir við nána samstarfsmenn í gegnum tíðina ollu vinslitum. En ótrauður hélt hann áfram og bauð sig fram aftur árið 2004 við lítinn fögnuð þeirra sem gleypt höfðu við þeim áróðri að hann hefði stuðlað að valdatöku Bush.

SB#7

„Þegar þú ferð inn í kjörklefann og hugsar, mér mun líða vel að kjósa Ralph Nader, því að hann er hreinn og ég er hreinn og mig langar að líða vel. Þannig að ég ætla að kjósa Nader. Hlustið vinir, foreldrar ykkar hljóta að hafa kennt ykkur að fyrir fimm mínútna vellíðan þurfið þið að borga fyrir alla ykkar ævi.“

Við lok myndarinnar um þennan hugsjónamann koma upp í hugann skilgreiningarnar sem birtar eru í upphafi. Þær segja að sveigjanlegur maður aðlagi sig heiminum, en að ósveigjanlegur maður aðlagi sig ekki heiminum heldur reyni að aðlaga heiminn að sér. Til þess að framfarir verði í samfélaginu þurfum við ósveigjanlega menn. Nader sé hinn ósveigjanlegi maður.

Running with Arnold

SB#8

„Viltu í alvöru fá leikara í framboð til ríkisstjóra. Hver er betri en leikari einhver sem hægt er að leikstýra og getur farið eftir handriti. Hann hefur einfaldningslegan sjarma sem gæti höfðað til kjósenda en hann er gangandi sviðsmynd.“

Þegar stórstjarnan Arnold Schwarzenegger bauð sig fram til ríkisstjóra Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum i þeim tilgangi að bola demókratanum David Gray frá völdum, varð uppi fótur og fit. Í myndinni Boðið fram (eða hlaupið) með Arnold eða á ensku Running with Arnold, er farið yfir feril hins metnaðargjarna Arnold Schwarzenegger sem ungur að aldri fékk áhuga á vaxtarrækt. Vaxtarræktin varð brátt aðaláhugamál hans og gekk það svo langt að hann strauk úr hernum til að geta tekið þátt í keppni. Eftir að hafa sankað að sér titlum í greininni flutti Schwarzenegger til Bandaríkjanna með 20 dollara í vasanum og stóra drauma. Eins og flestir vita náði hann miklum frama í kvikmyndum og varð að stórstjörnu, en þar fyrir utan auðgaðist hann mikið á líkamsræktarstöðvum og fasteignaviðskiptum. Við þetta bættist að hann giftist inn í Kennedy-fjölskylduna. Arnold varð því eins konar holdtekja ameríska draumsins.

En hugur Arnolds stefndi einnig inn í stjórnmálin og tengist myndin að mestu þeim heimi. Farið er yfir skuggalegri hliðar Schwarzenegger: framhjáhöld, vinskap við fyrrum nasista, kynferðislega áreitni, heimskuleg ummæli og sú mynd dregin upp að hann sé tækifærissinnaður maður sem geri hvað sem er fyrir frægð og frama.

Þeirri einsleitu mynd sem dregin er upp af Arnold er ætlað að fá áhorfendur til að halda að hann sé holdgervingur illskunnar. Myndin er þannig í raun rógsherferðarmynd dulbúin sem heimildarmynd og er því gott dæmi um að áhorfendur þurfa einnig að vera gagnrýnir á heimildirnar og samsetningu þess efnis sem fyrir augu ber. Þótt sannleikur kunni að leynast í þeim ásökunum sem á Arnold eru bornar, er matreiðslan þannig að gagnrýnir áhorfendur efast um gildi ásakananna og grunsemdir um hálfsannleik naga þá.

SB#9

Hasta la vista baby

Þegar á heildina er litið gefa báðar myndirnar ágætis sýn inn í bandaríska stjórnmálaveröld, þótt á ólíkan hátt sé. Myndin An unreasonable man gefur manni þá sýn að þó að hugsjónamenn séu ötulir þá séu það fyrirtækin og peningarnir sem ráði ferðinni og veiki stoðir lýðræðisins illilega. Hin myndin gefur manni innsýn í þá skuggahlið bandarískrar kosingabaráttu þar sem persónuárásir ráða ríkjum en málefnin gleymast eða falla í skuggann. Í þessum skúmaskotum ráða gamlar slúðursögur úrslitum frekar en það hvort menn hafi eitthvað fram að bera til hagsbóta fyrir almenning. Að sama skapi má segja að myndirnar endurspegli þann sorglega raunveruleika að tækifærissinnaðir athafnamenn á borð við Arnold, sem hugsa um þrönga hagsmuni þeirra sem gefa í kosningasjóðinn, séu búnir að ryðja hugsjónamönnunum í burtu til að setjast sjálfir að kjötkötlunum.

Það var heimildamyndaklúbburinn Hómer sem færði ykkur þennan pistil. Okkur er að finna á slóðinni www.hmk-homer.com.

Góðar stundir, klaufabárðar.

Er einræði í Hómer á enda? AKA. Plebbarnir taka völdin.

Sælir bræður í Kristi,

Var að spá í að lýðræðisvæða Hómer, finnst það við hæfi eftir síðustu myndir, þó ekki alla leið heldur taka svo kölluð „Baby steps“. Á næsta klúbbakvöldi ætla ég að sýna Manda Bala, svo er spurt, hvaða mynd af eftirfarandi finnst mönnum við hæfa að sýna með;

Bus 174
Land of look behind
Favela rising

Send a bullet

Strætó er góður kostur

Jamaica mon

Reggae dudes

Nú er bara að nýta takmarkaðan lýðræðislegan rétt sinn og kjósa.

Góðar stundir klaufabárðar
Hebbi

Hómer á hátíð?

Helgina 9.-12. maí stendur yfir Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg 2008 á Patreksfirði. Þar verður viðstaddur Albert nokkur Waysles. Hann hefur unnið sér það til frægðar að gera myndir eins og Gimme Shelter, Salesman og Grey Gardens. Undirritaður hefur þó aðeins séð tvær fyrrnefndu en hlakka til að sjá Grey Gardens og nýjustu myndina hans The Gates sem allar verða sýndar á hátíðinni og mun Albert heiðra gesti með nærveru sinni.

Albert Waisles

Ég er þeirrar skoðunar að heimildamyndaklúbburinn Homer verði að vera viðstaddur, gera pistill og blogga um atburðinn. Ég, Ottó og Neddi ætlum að mæta og vonumst til að sem flestir ykkar komi með. Eins og fyrr segir er þetta helgina 9. til 12. maí þannig það er bara að merkja þetta inn í dagbókina og byrja að safna fyrir óhóflegri bjór og popp neyslu.

Góðar stundir klaufabárðar

Hebbi